Norski rithöfundurinn Tor Bomann-Larsen hefur sent frá sér bók, þar sem efasemdir koma fram um að Hákon Noregskonungur hafi verið líffræðilegur faðir Ólafs konungs. Er leitt að því líkum að læknirinn sir Francis Laking hafi verið hinn raunverulegi faðir Ólafs.
Bomann-Larsen hélt blaðamannafund í Ósló í dag í tilefni af útkomu bókarinnar Folket, sem er annað bindi í bókaflokki um sögu þeirra Maud og Hákonar. Að sögn fréttastofunnar NTB hefur lengi verið orðrómur á kreiki um að Hákon konungur hafi ekki verið raunverulegur faðir Ólafs.
Eftir að Maud drottning og Karl prins, eins og Hákon hét upphafleg, höfðu verið gift í sex ár, var Maud lögð inn á heilsuhæli á Englandi árið 1902. Um sama leyti varð hún þunguð en á þessum tíma var Karl prins um borð í skipi við strendur Danmerkur.
Í bókinni er birt mynd af Guy Francis, syni Laking, sem fæddist árið 1875 en hann er sagður sláandi líkur Ólafi. Bomann-Larsen segir að það sé einnig hugsanlegt að Ólafur hafi fæðst eftir gervifrjóvgun og sonur Lakings hafi verið sæðisgjafinn.
Bomann-Larsen sagði að þegar árið 1903 hafi verið orðrómur um það í Danmörku að Karl prins væri ekki faðir Ólafs. Þá komst rannsóknarnefnd að þeirri niðurstöðu árið 1943 að Maud hefði ekki fætt Ólaf. Bomann-Larsen segist hins vegar ekki hafa fundið þeirri niðurstöðu stað og skjöl sýni með óyggjandi hætti fram á að Maud hafi fætt son.
Norskir sagnfræðingar segja að um sé að ræða mikilvægar upplýsingar. Haft er eftir sagnfræðingnum Hans Fredrik Dahl á fréttavef Aftenposten að samband þeirra feðga Hákonar og Ólafs verði að skoða í þessu nýja ljósi. Tor Bomann-Larsen sýndi norsku konungsfjölskyldunni í vor þær upplýsingar og gögn um málið sem hann hafði aflað sér í ríkisskjalasöfnum og konunglegum bókhlöðum í Evrópu. Þá taldi norska hirðin að ekki væri um að ræða mál sem gæti haft áhrif á norsku stjórnskipunina en ákvað samt í ágúst að skýra Kjell Magne Bondevik, forsætisráðherra, frá málinu.
Fram kemur á fréttavef Aftenposten að Haraldur Noregskonungur, sonur Ólafs, hafi sent frá sér tilkynningu þar sem hann segir að engar upplýsingar bendi til þess að Ólafur konungur hafi ekki verið sonur Hákonar. Haraldur segir hins vegar, að sagnfræðingar eigi rétt á að túlka söguna með sínum hætti og það eigi auðvitað einnig við um Tor Bomann-Larsen.
Ólafur Noregskonungur fæddist árið 1903 og var skírður Alexander. Hann tveggja ára gamall þegar Norðmenn samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu að taka föður hans, Karl prins, til konungs eftir að gengið úr ríkjasambandi við Svíþjóð.
Karl var prins af Danmörku en hann var sonur Friðriks VIII Danakonungs. Maud kona hans var prinsessa í Englandi, dóttir Játvarðs VII og Alexöndru drottningar en þau Maud og Karl voru náskyld.
Karl prins ákvað að taka sér konungsnafnið Hákon og gefa syni sínum nafnið Ólafur í virðingarskyni við norska konunga víkingatímans. Ólafur tók við konungstign í Noregi árið 1957 og ríkti til ársins 1991 þegar hann lést, 87 ára gamall.