Rapparinn Ol' Dirty Bastard (ODB) varð bráðkvaddur í hljóðveri í Manhattan í gær. Krufning á að fara fram í dag, en lögregla segir að allt líti út fyrir að hann hafi látist af „eðlilegum“ orsökum, að því er New York Daily News segir. ODB var einn af stofnendum rappsveitarinnar Wu-Tang Clan. Hann hét réttu nafni Russell Jones og var rétt tæplega 36 ára. Hann féll skyndilega í gólfið í hljóðverinu í gær og var úrskurðaður látinn kl. 17.04.
„Þetta er enginn brandari. Þetta er alvaran, eins og þegar maður missir móður sína, eða bróður,“ sagði félagi hans úr Wu-Tang, GhostFace Killah, þegar lík ODB var borið úr byggingunni þremur klukkustundum síðar. „Þetta er mikill missir,“ segir Killah og bætir við að ODB hafi áður kvartað yfir brjóstverkjum. „Ég býst við því að hann sé hjá Föðurnum núna. Hann er í góðum höndum.“
ODB, sem kallaði sig einnig Big Baby Jesus, Osiris og Dirt McGirt, hafði verið að undirbúa nýja plötu fyrir Roc-A-Fella hljómplötufyrirtækið og hafði ætlað að koma fram með Wu-Tang þegar sveitin kæmi aftur á tónleikum á föstudaginn var. Hann lét hins vegar ekki sjá sig og einn af félögum hans, Method Man, sagði á sviðinu: „Ef þið sjáið Ol' Dirty Bastard úti á götu, segið honum að fjölskyldu hans þyki vænt um hann og að hún sakni hans,“ að því er einn áhorfandinn, Samara Goldhect, hefur eftir honum.
ODB eyddi síðustu stundunum í hljóðverinu, en þaðan var hringt í neyðarlínuna kl. 16.45 í gær. Ekki liggur fyrir hver hringdi, eða hverjir aðrir voru í hljóðverinu þegar ODB varð bráðkvaddur. Sjúkraliðum tókst ekki að endurlífga hann. Engin tæki til eiturlyfjaneyslu fundust á vettvangi, að sögn heimildarmanns New York Daily News.
Wu-Tang kom fram á sjónarsviðið af miklum krafti árið 1993, með plötunni „Enter the Wu-Tang (36 Chambers)“ og ODB varð þá þegar alræmdur fyrir óstöðuga hegðun. Hann var skotinn tvisvar sinnum, hið minnsta, og eignaðist að minnsta kosti 13 börn með mörgum konum. Hann vakti þjóðarathygli í Bandaríkjunum þegar hann þusti upp á svið á Grammy verðlaununum árið 1998 og kvartaði undan því að hafa ekki unnið.
ODB var ákærður fyrir morðtilraun, búðarþjófnað og eiturlyfjaneyslu og var um skeið á flótta undan réttvísinni, eða þar til hann náðist á bílastæði fyrir utan McDonalds veitingastað árið 1999. Hann reyndi að fremja sjálfsmorð áður en hann var færður í fangelsi, en lofaði bót og betrun þegar honum var sleppt á síðasta ári.
Á fréttavef BBC er haft eftir Cherry Jones, móður ODB: „Almenningur þekkti hann sem Old Dirty Bastard en ég þekkti hann sem Rusty. Hann var blíðasta og örlátasta sál á jörðunni."