Franski kvikmyndaheimurinn fór allur á annan endann í dag eftir að dómstóll úrskurðaði að nýjasta kvikmynd leikstjóra Amelie, með sjálfri stjörnunni úr þeirri mynd í aðalhlutverki, geti ekki talist frönsk kvikmynd vegna þess að bandarískt kvikmyndaver hafi framleitt hana.
Þessi úrskurður gæti leitt til þess að myndin geti ekki tekið þátt í Caesar-verðlaunakeppninni (sem er franska hliðstæðan við Eddu-verðlaunin) og ekki fáist opinber styrkur út á hana í Frakklandi.
„Á nú allt í einu að halda því fram að þessi kvikmynd, sem segir franska sögu, er byggð á franskri skáldsögu, var tekin algerlega í Frakklandi, rúmlega tvö þúsund franskir aukaleikarar tóku þátt í, um 30 franskir leikarar léku í og um 500 franski tæknimenn unnu að, skuli ekki lengur teljast frönsk kvikmynd?“ sagði í yfirlýsingu frá franska framleiðslufyrirtækinu 2003 Productions, sem tók þátt í gerð myndarinnar.
„Þessi ótrúlegi úrskurður teflir í tvísýnu fjármögnun kvikmyndarinnar, fyrirtækinu 2003 Productions og, til lengri tíma litið, fjárfestingum í franskri kvikmyndagerð,“ sagði ennfremur í yfirlýsingunni.
Kvikmyndin heitir „Trúlofunin langa“. Aðalhlutverkið leikur Audrey Tautou og leikstjóri er Jean-Pierre Jeunet, en þau unnu saman að Amelie.
Í gær úrskurðaði dómstóll að myndin teldist ekki frönsk, eftir að teknar höfðu verið fyrir kvartanir samtaka óháðra kvikmyndaframleiðenda og fyrirtækja sem tóku þátt í framleiðslu og dreifingu í Frakklandi.
Ákvað dómstóllinn að ekki væri hægt að sækja um 3,6 milljóna evru styrk frá franska ríkinu vegna þess að 2003 Productions væri einfaldlega málamyndafyrirtæki, skráð í Frakklandi, í eigu bandaríska kvikmyndaversins Warner Bros. 2003 Productions er að einum þriðja í eigu Warner en restina í fyrirtækinu eiga starfsmenn og yfirmenn Warner í Frakklandi.
Gerð myndarinnar kostaði 45 milljónir evra og er hún næst dýrasta kvikmynd sem gerð hefur verið í Frakklandi (á eftir Ástríki og Steinríki og Kleópötru, sem gerð var 2002). Warner lagði fram megnið af framleiðslukostnaðinum en reiddi sig á opinbera styrki í Frakklandi til að greiða afganginn.
Myndin var frumsýnd í Frakklandi fyrir mánuði. Jeunet var fenginn til að leikstýra henni í þeirri von að hann myndi ná sama árangri og með Amelie, sem fór sigurför um kvikmyndahús hvarvetna og fór langt með að endurvekja franskan kvikmyndaiðnað.