Leikstjórinn Oliver Stone segist ætla að gera kvikmynd um barónessuna Margaret Thatcher, fyrrum forsætisráðherra Bretlands. Hann segist vera mikill aðdáandi Thatcher, sem var fyrsta konan til að verða forsætisráðherra Bretlands og er nú 79 ára. Oliver Stone hefur áður gert kvikmyndir um þekkta stjórnmálamenn; „Nixon“ um Richard Nixon og „JFK“ um John F. Kennedy. Þá hefur hann gert sjónvarpsmynd um Ronald Reagan.
Stone hefur að sögn leikkonuna Meryl Streep í huga fyrir aðalhlutverkið. „Margaret Thatcher er undraverð kona og gott umfjöllunarefni fyrir kvikmynd. Ég er að hugsa um að fá Meryl Streep til að leika hana,“ er haft eftir leikstjóranum.