Ricky Gervais, snillingurinn sem lék yfirmanninn óþolandi í sjónvarpsþáttunum The Office, segist hafa neitað atvinnutilboðum upp á tólf hundruð milljónir íslenskra króna. Ástæðan? Hann þolir ekki peninga!
„Upphæðin sem mér var boðin var rosaleg, en ég hef ekki áhuga á peningum,“ sagði grínistinn breski sem er 43 ára gamall, að því er fram kemur á vefmiðlinum Ananova. „Það er bara andskoti vandræðalegt þegar fólk veit að maður hefur þúsund sinnum hærri laun en hjúkrunarfræðingur. Ég er ekki stoltur af því hvað ég þéna mikið, ég er stoltur af því sem ég geri.“
Gervais hefur nú þegar náð að tryggja fjárhagslegt öryggi sitt fyrir lífstíð eftir að hafa leikið yfirmanninn hræðilega, David Brent í The Office. Hann hefur fengið fjölda tilboða um hlutverk eftir að þátturinn hans vann hlaut tvö Golden Globe verðlaun.
Hann hefur meðal annars neitað að leika hlutverk í myndum á borð við framhaldið af Pirates of the Caribbean, Magnum PI og Kaupmanninum frá Feneyjum með Al Pacino.
Þá sagðist hann nýlega hafa afþakkað samning um að leika í auglýsingum fyrir bjórtegund. „Það er nógu glatað að fólk segir næstu tuttugu árin, 'hei, þetta er gaurinn úr The Office,' en það er þó tuttugu sinnum skárra en að það verði 'hei, þetta er gaurinn úr bjórauglýsingunni',“ sagði hann í viðtali við götublaðið The Sun.
Gervais er nú að vinna að nýrri gamanþáttaröð með félaga sínum Stephen Merchant. Hefur hann látið uppi að fjöldi stjarna muni láta sjá sig í þáttunum, meðal annarra, Jude Law.