Bítillinn fyrrverandi Ringo Starr og teiknimyndafrömuðurinn Stan Lee tilkynntu í dag, að þeir hefðu gert samkomulag um að markaðssetja teiknimyndahetju sem byggir á Ringo. Mun Starr tala fyrir persónuna, en gert er ráð fyrir að fyrstu teiknimyndirnar komi út á DVD-diskum á næsta ári.
„Ringo er elskaður og dáður um allan heim fyrir gæsku sína og kímnigáfu," sagði Lee, sem bjó m.a. til teiknimyndahetjurnar Köngulóarmanninn, The Hulk og X-mennina. „Ofurhetjan Ringo hefur þessa eiginleika en að auki ýmsa leynda eiginleika Ringos, sem fólk hefur ekki vitað af, því Ringo hefur haldið þeim leyndum - þar til nú."
Teiknimyndahetjunni Ringo er lýst þannig, að hún sé hlédræg ofurhetja sem berjist við ill öfl og bjargi jörðinni með taktföstum hætti. IDT Entertainment mun fjármagna, framleiða og dreifa efninu en POW! Entertainment, fyrirtæki Lees, mun koma að þróuninni ásamt Rocca Bella, fyrirtæki Ringos.
„Ég er afar spenntur fyrir því að verða hlédræg ofurhetja," segir Ringo í yfirlýsingu. Hann segist hlakka til að búa til tónlist fyrir myndirnar: „Sjáumst bráðlega í teikimyndalandi," bætir hann við.
Ekki kemur fram hvers konar ofurkröftum Ofurhetju-Ringo býr yfir.