25 ára þýsk kona, sem er atvinnulaus og hafnaði tilboði um að veita "kynlífsþjónustu" í vændishúsi, á nú á hættu að atvinnuleysisbætur hennar verði skertar vegna nýrra laga.
Vændi var heimilað í Þýskalandi fyrir tveimur árum og eigendur vændishúsa hafa fengið aðgang að opinberum gögnum um fólk á atvinnuleysisskrám.
Konan er menntuð í upplýsingatækni en starfaði síðast sem gengilbeina á kaffihúsi. Hún fékk bréf frá vinnumiðlun sem sagði henni að hringja í atvinnurekanda sem hefði hug á að ráða hana. Hann reyndist vera eigandi vændishúss.
Samkvæmt breytingum á lögum um þýska velferðarkerfið er hægt að neyða konur undir 55 ára aldri til að taka atvinnutilboðum, eða skerða bætur þeirra, hafi þær verið á atvinnuleysisskrá lengur en í eitt ár.
Stjórnin íhugaði að bæta við ákvæði um að þetta ætti af siðferðislegum ástæðum ekki við um tilboð frá vændishúsum en komst að þeirri niðurstöðu að of erfitt væri að gera greinarmun á þeim og vínveitingahúsum. Vinnumiðlanirnar þurfa því að afgreiða atvinnutilboð vændishúsa með sama hætti og annarra.
Vændishúsið getur höfðað mál gegn vinnumiðluninni neiti hún að refsa konunni fyrir að hafna tilboðinu með því að lækka bæturnar.
"Það er ekkert í lögunum sem kemur í veg fyrir að konur séu neyddar í kynlífsþjónustu," sagði Merchthild Garweg, lögfræðingur í Hamborg.