Victoriu Beckham gengur vel að koma sér í form eftir fæðingu Cruz, þriðja sonar hennar og David Beckham. Frá þessu skýrði Beckham blaðamönnnum en hann sagði konu sína „afar ánægða“ með útlit sitt, nú þremur vikum eftir fæðingu sonarins.
„Hún er mjög hamingjusöm - hún þyngdist nú ekki mikið satt að segja, ef ég á að vera hreinskilinn. Hún var bara með litla sæta kúlu. En hún er ánægð og við mjög góða heilsu,“ sagði Beckham um konu sína.
Cruz var tekinn með keisaraskurði á sjúkrahúsi í Madríd í febrúar. Fyrir eiga Beckham-hjónin tvo drengi, þá Brooklyn, sem er sex ára og Romeo, en hann er tveggja ára gamall.
Beckham skýrði jafnframt frá því að hjónin hefðu valið nafnið á soninn einungis nokkrum dögum áður en hann fæddist. „Við vildum eitthvað öðruvísi, auðvitað, því við erum þannig gerð og við áttum satt að segja í vandræðum með að finna nafnið á Cruz. Aðeins nokkrum dögum áður en hann fæddist höfðum við enn ekki fundið nafn á hann.“
„Við erum mjög hrifin af því. Við gerðum þó dálítið próf. Victoria stóð í anddyrinu og ég fór út og kallaði upp stigann - Cruz, komdu niður! - Að því loknu vorum við viss um að þetta væri rétta nafnið,“ sagði Beckham.