Bandaríska hipp-hopp stjarnan Lil' Kim hefur verið fundin sek um meinsæri með því að hafa sagt ósatt fyrir rétti um byssubardaga sem hún varð vitni að árið 2001. Gæti söngkonan átt yfir höfði sér 5 ára fangelsi. Lil' Kim, sem heitir réttu nafni Kimberley Jones, var hins vegar sýknuð af ákæru fyrir að hindra framgang réttvísinnar. Segist hún ætla að áfrýja dómnum.
Lil'Kim var í febrúar 2001 ásamt félögum sínum í rappsveitinni Junior MAFIA í þætti útvarpsstöðvarinnar Junior MAFIA , sem er með höfuðstöðvar á Manhattan í New York. Þegar þau fóru út úr byggingunni sátu félagar úr rappsveitinni Capone-N-Noreaga fyrir þeim og skotbardagi braust út.
Þegar málið kom fyrir rannsóknarkviðdóm árið 2003 sagðist Lil'Kim ekki hafa séð Damion Butler, fyrrum umboðsmann hennar, og Suif Jackson, náinn vin hennar, á staðnum. Þeir hafa síðan báðir játað að hafa verið þar og beitt skotvopnum.
Í réttarhöldunum nú sagðist Lil'Kim hafa verið með sólgleraugu þegar þetta gerðist og því ekki séð mennina. Hins vegar mun hún hafa sagt rannsóknarkviðdómnum að Butler hefði ekki verið á staðnum og hún þekkti ekki Jackson.
Einn særðist í skotbardaganum. Sama útvarpsstöðin tengdist skotbardaga sem rapparinn 50 Cent blandaðist í nýlega.