Nærri 2000 manns stóðu klæðlaus og skjálfandi af kulda í miðaldabænum Bruges í Belgíu í morgun að ósk ljósmyndarans Spencers Tunick, sem sérhæfir sig í að ljósmynda nakið fólk í kunnu umhverfi. „Þetta var góð tilfinning. Allir voru naktir og það myndaðist þessi samkennd. Enginn skammaðist sín. Það var hins vegar afar kalt og allir voru holdvotir," sagði Charlotte Logghe, ein fyrirsætan.
Hitastig var við frostmark og einnig var rok og rigning fólkið lét það ekki á sig fá og kastaði klæðum í miðbænum í nágrenni við klukkuturn frá miðöldum.
Í leikhúsi bæjarins settist fólk einnig nakið á áhorfendabekkina og stillti sér upp eftir óskum Tunicks.
Tunick hefur tekið ljósmyndir af þessu tagi frá árinu 1992 og vakið heimsathygli. Ljósmyndarinn valdi Bruges til að opna Corpus 05 hátíðina, sem stendur yfir þar til í september.