Kvikmyndaleikkonan Renée Zellweger og sveitasöngvarinn Kenny Chesney gengu í hjónaband á Jómfrúreyjum í gær en þau hittust á styrktarsamkomu í janúar vegna hamfaranna í Asíu. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.
Fjölmiðlafulltrúi Zellweger staðfesti þetta í morgun og sagði að um hefði verið að ræða látlausa athöfn, sem fór fram á eynni St. John þar sem Chesney býr. Um 5000 manns búa á eynni en tveir þriðju hlutar hennar eru friðlýstir vegna fuglabyggðar. Brúðurin klæddist brúðarkjól frá Caroline Herrerra við athöfnina sem stóð í fimmtán mínútur og voru nánasta fjölskylda og vinir brúðhjónanna viðstödd.
Zellweger, sem er 36 ára, var áður trúlofuð leikaranum Jim Carrey og nýlega slitnaði upp úr sambandi hennar og Jack White, söngvara og gítarleikara hljómsveitarinnar White Stripes. Renée var fyrr á þessu ári einnig sögð eiga í sambandi við írska tónlistarmanninn Damien Rice.
Chesney, sem er 37 ára, leggur af stað í tónleikaferð um 46 ríki Bandaríkjanna á fimmtudag og mun ferðin standa í þrjá mánuði. Hann er ein skærasta stjarna sveitatónlistarinnar í Bandaríkjunum um þessar mundir og á tvær plötur í lista Billboard yfir vinsælustu sveitatónlistarplöturnar.
Árið 1999 gerði Chesney vinsælt lagið You Had Me From Hello, en það er fræg setning sem Zellweger fór með í kvikmyndinni Jerry Maguire árið 1996.