Níutíu og fimm ára gamall maður hefur sett nýtt heimsmet í 100 metra hlaupi í aldursflokknum 95-99 ára. Nýja metið er 22,04 sekúndur og er tæpum tveimur sekúndum betra en gamla metið.
Japaninn fótfrái, sem heitir Kozo Haraguchi, hóf ekki að æfa hlaup fyrr en hann var 65 ára og hann var eini keppandinn í methlaupinu, sem fór fram í borginni Miyazaki. Haraguchi á einnig heimsmetið í aldursflokknum 90-95 ára, 18,08 sekúndur.
Haraguchi sagði að aðstæður hefðu ekki verið sem bestar vegna þess að rigning var og hann þurfti því að einbeita sér að því að renna ekki til í brautinni. „Allir hvöttu mig áfram og ég hugsaði stöðugt að ég mætti ekki hrasa," sagði hann.