Heimildarmynd um mörgæsir hefur slegið met kvikmyndarinnar Amelie sem næstmest sótta franska myndin í kvikmyndahúsum Norður-Ameríku frá upphafi. Mest sótta franska myndin er enn Fimmta frumefni (Fifth Element) Luc Besson.
Myndin, La Marche de l'Empereur (March of the Penguins) er eftir leikstjórann Luc Jacquet og greinir frá mökunartíma keisaramörgæsa á suðurskautinu. Hún var sýnd þar vestra í síðastliðinni viku með áðurnefndum árangri. Myndin er jafnframt næstmest sótta heimildarmyndin frá upphafi í bandarískum kvikmyndahúsum en metið á heimildarmyndamógúllinn Michael Moore fyrir mynd sína Farenheit 9/11.
La Marche de l'Empereur tók 14 mánuði í upptökum á suðurskautinu. Í hinni frönsku útgáfu myndarinnar voru leikarar fengnir til að ljá mörgæsunum raddir sínar. Í Bandaríkjunum er myndin hins vegar sýnd án þess konar talsetningar en leikarinn Morgan Freeman er sögumaður.
La Marche de l'Empereur verður sýnd hér á landi á kvikmyndahátíðinni Októberfest sem fram fer dagana 26. október til 14. nóvember.
Nú eru í bígerð þónokkrar kvikmyndir og heimildarmyndir sem byggjast á atburðunum í Bandaríkjunum þann 11. september 2001.
Breski kvikmyndagerðarmaðurinn Paul Greengrass ætlar að gera mynd byggða á hinsta flugi vélarinnar sem nefnd var Flug 93 og hrapaði 11. september. Myndin lýsir síðustu 90 mínútunum í lífi farþeganna um borð í vélinni og flugræningjanna þar til hún hrapaði. Ekki er vitað hvenær myndin kemur út en undirbúningur er sagður vera í fullum gangi. Heimildarmynd um þessa sömu flugvél er fulbúin og verður sýnd í sjónvarpi í Bandaríkjunum á næstu mánuðum.
Leikstjórinn Oliver Stone er einnig með í bígerð mynd sem byggist á atburðum þessa dags. Mynd hans, sem ekki hefur hlotið nafn, segir sögu tveggja lögreglumanna sem sátu fastir inni í Tvíburaturnunum (World Trade Center) þegar ósköpin dundu yfir. Leikarinn Nicolas Cage fer með aðalhlutverk myndarinnar.
Paramount Pictures hafa svo tryggt sér kvikmyndaréttinn á bókinni 102 minutes sem lýsir atburðarásinni frá því að fyrsta flugvélin flaug inn í Tvíburaturnana og þar til annar þeirra féll saman.
Auk ofantalinna mynda eru í bígerð eða hefur verið gerður fjöldi sjónvarpsþátta um árásirnar, meðal annars á National Geographic og ABC sjónvarpsstöðvunum.