Bandaríski ljósmyndarinn Spencer Tunick heldur áfram að taka „nektarlandslagsmyndir" víða um heim. Um helgina fóru 1500 manns úr fötunum í frönsku borginni Lyon og stilltu sér upp á hafnarsvæðinu í Lyon þar sem árnar Saone og Rhone mætast.
Tunick hefur ljósmyndað hópa nakins fólks í mörgum af kunnustu borgum heims, svo sem Barcelona. Helsinki, Lissabon, Mexíkóborg, New York og Santiago en þetta var í fyrsta skipti sem hann starfaði í Frakklandi. Að sögn norsku fréttastofunnar NTB hefur Tunick óskað eftir því að fá að taka myndir af þessu tagi í Ósló.
Frá árinu 1992 hefur Tunick fengið um 40 þúsund manns til að afklæðast og stilla sér upp. Fólk sem tekur þátt fær eintök af myndunum en engar greiðslur.