Bandaríska rokkhljómsveitin The White Stripes er á leiðinni til Íslands, en sveitin spilar í Reykjavík þann 20. nóvember næstkomandi. Tónleikarnir fara fram í Laugardalshöll, en það er Hr. Örlygur sem stendur að komu sveitarinnar til Íslands.
The White Stripes samanstendur af Jack White (gítar/söngur) og Meg White (trommur). Sveitin var stofnuð í Detroit árið 1997 og vakti mikla athygli fyrir sína fyrstu breiðskífu sem var samnefnd sveitinni og kom út árið 1999.
Í kjölfarið fylgdu skífurnar De Stijl (2000), White Blood Cells (2001) og Elephant (2003). Lög á borð við „Seven Nation Army“ og „I Just Don't Know What To Do With Myself“ komu The White Stripes í röð vinsælustu hljómsveita heims.
Fimmta breiðskífa sveitarinnar, Get Behind Me Satan, sem kom út í sumar, hefur fengið gríðarlega góða viðtökur hjá bæði plötukaupendum og í fjölmiðlum. Fyrstu tvö smáskífulög plötunnar, „Blue Orchild“ og „My Doorbell“ hafa notið mikilla vinsælda, en nýtt smáskífulag, „The Denial Twist“ kemur út viku fyrir tónleika þeirra í Reykjavík.