Rappstjarnan The Game, eða Leikur upp á íslenskuna, hefur verið ákærður fyrir ósæmilega hegðun er hann neitaði að taka af sér hrekkjavökugrímu. Leikur, sem heitir réttu nafni Jayceon Taylor, var að gefa eiginhandaráritanir í verslanamiðstöð nokkurri í Norður-Karólínufylki og mun hafa hagað sér með þeim hætti að það truflaði viðskiptavini, að sögn lögreglu. Þegar lögreglan nálgaðist rapparann umkringdu vinir hans lögregluna og þóttu ógnandi. Neyddist lögreglan til þess að beita á þá piparúða.
Leikur var leystur úr haldi gegn 500 dollara tryggingu, andvirði um 30 þúsund króna, og segist hafa verið handtekinn að ósekju. Sagði hann rjúkandi reiður frá þessu í viðtali við bandarísku sjónvarpsstöðina WFMY-TV. „Ég var handtekinn fyrir að veita lítilli stelpu eiginhandaráritun,“ sagði rapparinn. Mun hann hafa veitt einkennilegar eiginhandaráritanir í upphafi árs þar sem stóð: „F*** 50 Cent“ eða „Til fjandans með 50 Cent“ og mun hann þar hafa átt við fyrrum hljómsveitarbróður sinn sem gengur undir því rapp-nafni.
Vinslit urðu með röppurunum er 50 Cent rak Leik úr hipp-hopp hljómsveitinni G Unit í febrúar sl. Urðu deilur þeirra í kjölfarið mjög ákafar og skiptust þeir á byssuskotum fyrr á árinu án þess þó að drepa hvor annan.