Foreldrar stúlku sem tók þátt í raunveruleikaþættinum Stóra bróður í Bretlandi fyrr á þessu ári segja þáttinn hafa eyðilagt líf dóttur þeirra. Foreldrarnir segja stúlkuna, sem er tvítug, hafa farið að drekka ótæpilega eftir að hún féll úr þættinum, eytt öllum fjármunum sínum og flutt í hverfi sem sé annálað fyrir vafasamt næturlíf. Er hún í lífshættu, að sögn foreldranna.
Stúlkan, sem heitir Lesley Sanderson, tók þátt í breskri útgáfu raunveruleikaþáttarins fyrr á þessu ári. Var hún einungis tvær vikur í þættinum áður en sjónvarpsáhorfendur ákváðu að senda hana úr honum. Móðir hennar sagði dóttur sína hafa átt erfitt með að höndla þá frægð sem hún hlaut til skamms tíma og hafi hún farið að drekka ótæpilega eftir að áhorfendur kusu hana til að yfirgefa þáttinn. „Ég óttast að dag einn verði barið að dyrum og okkur færðar þær fréttir að hún hafi fundist látin í skurði,“ sagði móðirin áhyggjufull í samtali við breska dagblaðið The Star og bætti við að stúlkan hafi flutt að heiman skömmu eftir að hún sneri aftur heim eftir að hún var rekin úr þættinum. „Hún flutti úr faðmi ástkærrar fjölskyldu sem býr í ágætu húsi í niðurnítt hús í rauða hverfinu þar sem vændiskonur ganga um götur,“ sagði hún.
Að sögn The Star flutti stúlkan að heiman eftir að fjölskyldan krafðist þess að hún flytti eða drægi úr drykkju sinni og skemmtanahaldi.
„Líf okkar verður aldrei samt aftur,“ sagði móðirin í samtali við blaðið.