Tónleikar bresku hljómsveitarinnar Queen á Wembley leikvanginum í Lundúnum á Live Aid styrktartónleikunum í júlí fyrir 20 árum þykja þeir bestu, að mati 60 tónlistarmanna, blaðamanna og fleiri manna sem tengjast tónlistariðnaðinum. Þykir sérstaklega eftirminnilegt þegar Freddie Mercury, söngvari hljómsveitarinnar, fékk 75.000 manns til að klappa saman höndum í laginu Radio Ga-Ga. Rás fjögur á breska ríkisútvarpinu stóð fyrir könnuninni.
Í öðru sæti voru tónleikar Jimi Hendrix á Woodstock hátíðinni í ágúst árið 1969 en tónleikar bresku pönkaranna í Sex Pistols í Manchester Free Trade Hall í júní árið 1976 lentu í þriðja sæti.
Nýjustu tónleikarnir sem lentu á topp tíu lista í könnuninni voru tónleikar Radiohead á Glastonbury tónlistarhátíðinni árið 1997.
Á meðal annarra tónlistarmanna sem komust á lista voru Bob Dylan, David Bowie, Bob Marley og Oasis.
Þá komust síðustu tónleikar bandaríska gruggbandsins Nirvana á Reading tónlistarhátíðinni í Bretlandi árið 1992 á listann og Smile tónleikar Brian Wilsons í Royal Festival Hall í Lundúnum í febrúar á síðasta ári.
Þá komust tónleikar bresku rokkhljómsveitarinnar Rolling Stones í Hyde Park í maí árið 1969 á blað. Ókeypis var á tónleikana sem voru haldnir tveimur dögum eftir andlát gítarleikara hljómsveitarinnar, Brians Jones.