Rapparinn 50 Cent hefur stigið fram og hrósað George W. Bush Bandaríkjaforseta. Kemur þetta nokkuð á óvart þar sem Bush hefur sætt mikilli gagnrýni að undanförnu meðal almennings og frá fræga fólkinu í Bandaríkjunum. Þ.á.m. hefur rapparinn Kanye West gagnrýnt Bush harðlega.
50 Cent segir að hann dáist mjög að forsetanum. „Hann er ótrúlegur. Algjör bófi (e. gangsta). Mig langar til þess að hitta Bush og taka í höndina á honum og segja honum frá því hvað ég sé mikið af sjálfum mér í honum,“ segir rapparinn.
50 Cent, sem er einnig þekktur undir nafninu Curtis Jackson, bætir því við að ef að honum væri ekki meinað að kjósa vegna vegna þeirra afbrota sem hann hefur framið hefði hann kosið Bush. Þess má geta að Jackson, sem er m.a. frægur fyrir að að hafa lifað af skotárás þar sem hann var skotinn níu sinnum, framfleytti sér með sölu á krakki áður en að hann varð frægur rappari.