Jet Li ætlar að hætta að leika í bardagamyndum. Ástæðan fyrir því er sú, að hann vill verða þekktur fyrir leik sinn fremur en fimi. Leikarinn, sem er 42 ára, sagði nemendum við Fudan háskólann í Kína að hann langi til að einbeita sér að heimspekilega þenkjandi kvikmyndum og vilji leika í kvikmyndum franska leikstjórans Luc Besson.
Nýjasta bardagamynd Lis er kvikmyndin Fearless og sagði hann, að það verði sín síðasta hasarmynd af þessari tegund. „Ég hef sagt oftar en einu sinni að þetta muni verða mín síðasta bardagamynd,“ sagði hann.
Jet Li hefur verið boðið að leika í meira en 20 kvikmyndum og segir hann, að hann muni taka ákvörðun um það fljótlega hvaða mynd hann ætli að leika í.