Nýjasti Íslandsvinurinn, hinn einstaki leikstjóri Quentin Tarantino, lýsti því nýverið yfir að hann hyggist standa fyrir því að Kill Bill komi aftur í kvikmyndahús - en þá sem ein mynd.
Þannig hafði Tarantino hugsað sér myndirnar upphaflega en misvitrir markaðsspekúlantar komu því til leiðar að "epíkin" var klippt í tvennt.
„Mig langar til að tengja myndirnar saman í eitt tilkomumikið verk," segir Tarantino.
„Myndin mun fara þannig aftur í kvikmyndahúsin. Ég hef verið að tefja þetta, einfaldlega af því að ég þurfti að taka mér hlé frá myndunum."
Búast má við þessari ríflega fjögurra stunda mynd á næsta ári.