Sú óvenjulega staða hefur komið upp að lag, sem er í undankeppni RÚV fyrir söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, hefur hlotið víðtæka dreifingu á netinu og það er nokkuð sem stríðir gegn reglum keppninnar. Nú standa yfir ströng fundarhöld í höfuðstöðvum Ríkisútvarpsins og er niðurstaða í málinu væntanleg innan tíðar.
Lagið heitir Til hamingju Ísland og er í nokkuð grínkenndum stíl í flutningi Ágústu Evu Erlendsdóttur í gervi Silvíu Nætur.
Hjá framleiðslufyrirtækinu Basecamp fékk Fréttavefur Morgunblaðsins þær fregnir að fundum hefði átt að ljúka fyrir hádegi í dag en þeir hefðu dregist eitthvað á langinn. „Það er verið að reyna að leysa þetta mál á sem farsælastan hátt, það þarf að finna niðurstöðu sem hentar öllum. Þetta lag er komið út um allt og menn vita að það má ekki dreifa lagi sem keppir í Eurovision áður en forkeppnin fer fram en málið er bæði snúið og viðkvæmt,” sagði Bjarney Lúðvíksdóttir, verkefnastjóri hjá Basecamp.