Breskur uppfinningamaður og verslunareigandi, Howard Stapleton hefur markaðssett nýtt tæki sem fælir burtu unglinga. Tækið byggir á sömu tækni og músafælur sem senda út hljóð á tíðni sem flestir menn nema ekki.
Friðrik Rúnar Guðmundsson heyrnar- og talmeinafræðingur sagði í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins að þetta sé ekki ólíklegt. „Þegar við fæðumst er innraeyrað fullskapað og inni í kuðungnum eru bifhár og heyrnarfrumur sem fer síðan fækkandi eftir því sem við eldumst,” sagði Friðrik Rúnar.
„Við fæðingu getum við numið hljóð sem hafa tíðnina 20 þúsund rið en við 25 ára aldur erum við yfirleitt hætt að heyra hljóð sem hafa hærri tíðni en 12 þúsund rið,” sagði Friðrik Rúnar.
Tækið hannaði Stapelton til að setja upp fyrir utan verslun sína til að losna við unglingagengi sem héngu þar öllum stundum. Tækið hefur verið kallað „Moskítóflugan” sökum þess að hljóðið sem það gefur frá sér minnir á pirrandi suð í skordýrum.
Ananova fréttavefurinn skýrði frá því að „moskítóflugan” sendi út hátíðnihljóðið á 16 þúsund riða tíðni og hljóðstyrkurinn er um 80 desíbel. Að sögn heyra unglingarnir hljóð sem minnir á það þegar einhver spilar mjög illa á fiðlu en fullorðnir heyra ekki neitt. Lögreglan á Englandi styður verkefnið.
Friðrik Rúnar sagðist vita dæmi þess að menn gætu heyrt hátíðnihljóðið í músafælum og því væri ekki ólíklegt að unglingafælan virkaði með ágætum.