Þrír ljósmyndarar, sem eltu Díönu prinsessu og Dodi Al Fayed nóttina sem þau létust í bílslysi árið 1997, hafa verið sakfelldir fyrir að hafa brotið friðhelgi einkalífsins samkvæmt frönskum lögum. Voru þeir dæmdir í einnar evru sekt hver.
Ljósmyndararnir Jacques Langevin, Fabrice Chassery og Christian Martinez eru allir franskir og hafa það að atvinnu að eltast við fræga fólkið í þeirri von að ná af þeim myndum sem hægt sé að selja til fjölmiðla. Ljósmyndararnir voru allir sýknaðir fyrir dómi árið 2003 og 2004 en faðir Dodi's, Mohamed Al Fayed, neitaði að gefast upp og vann málið nú í hæstarétti.