Hæstiréttur Malasíu hefur samþykkt að ákæra megi ungt par fyrir brot á velsæmislögum fyrir að hafa verið gripin glóðvolg í faðmlögum og við kossaflens í almenningsgarði í Malasíu.
Parið, sem er á þrítugsaldri, var í faðmlögum í almenningsgarði við Tvíburaturnana í höfuðborg landsins, Kuala Lumpur, þegar öryggisverðir komu að þeim. Neituðu þau sök þegar þau komu fyrir héraðsdóm vegna athæfisins. Lögfræðingur þeirra sagði fyrir dómi að ekkert væri athugavert við að ástfangið fólk sýndi ást sína og ekki ætti að stöðva fólk við að kyssast og faðmast á almannafæri. Flestir íbúar Malasíu eru múhameðstrúar.
Ef dómari telur að ef þau hafi brotið lög, geta þau átt von á því að þurfa að greiða sekt og að sitja eitt ár í fangelsi fyrir athæfið.