Bubbi Morthens heldur stórtónleika í Laugardalshöll þann 6. júní í tilefni af 50 ára afmæli sínu þann dag. Á tónleikunum, sem bera yfirskriftina 06.06.06, ætlar Bubbi að líta yfir farinn veg að flytja tónlist frá öllum sínum ferli undanfarin 26 ár, allt frá fyrstu árunum með Utangarðsmönnum til dagsins í dag. Á þriðja tug tónlistarmanna koma fram með Bubba á tónleikunum.
Í tilkynningu vegna tónleikanna segir að Bubbi Morthens hafi allt frá 1980 verið einn vinsælasti tónlistarmaður landsins en hann á að baki fleiri seldar plötur á Íslandi en nokkur annar tónlistarmaður. Vinsældir hans hafi verið ótvíræðar en um leið hafi hann verið einn umdeildasti tónlistarmaður íslenskrar rokksögu. Hann hefur starfað í nokkrum af vinsælustu rokkhljómsveitum landsins eins og Utangarðsmönnum, Egó, Das Kapital og GCD sem hafa sent frá sér fjölmörg lög og breiðskífur sem hafa lifað með þjóðinni í árafjöld.
Bubbi hefur ennfremur sent frá sér fjölda platna á eigin vegum sem hann mun gera skil á tónleikunum, ýmis einn á sviðinu með kassagítar í hendi eða með hljómsveit sér til aðstoðar. Má þar nefna breiðskífur eins og Fingraför, Kona, Sól að morgni, Frelsi til sölu, Von og Sögur af landi.
Undirbúningur fyrir tónleikana hefur staðið yfir undanfarna mánuði. Meðal annars er búið að ná saman meginþorra þeirra tónlistarmanna sem hafa starfað með Bubba í hljómsveitum og öðrum verkefnum undanfarin 26 ár, margir af þeim hafa ekki starfað með Bubba í fjölmörg ár.
Bakhjarlar tónleikanna eru Og Vodafone og Glitnir. Forsala miða hefst laugardaginn 6. maí og fer fram í verslun Og Vodafone, Síðumúla 28. Almenn miðasala hefst mánudaginn 8.maí í öllum verslun Og Vodafone og á www.ogvodafone.is.