Stjarnan úr sjónvarpsþáttaröðinni Beðmál í borginni (Sex and the City), Sarah Jessica Parker segir að sér finnist erfitt að geta ekki greitt úr kynlífsvandamálum aðdáenda þáttanna. Henni finnst hvíla á sér sú skylda að hafa sérfræðikunnáttu í öllu sem tengist kynlífi líkt og Carrie Bradshaw, blaðakonan sem hún leikur í þáttunum.
„Ég verð vör við vonbrigði fólks þegar ég hef ekki lausnina á vandamálum þeirra,” sagði Parker nýlega í viðtali við brasilíska tímaritið Epoca. „Ég er ekki með doktorsgráðu í kynlífsráðgjöf eða sálfræði, ég er leikkona. Ætli George Clooney sé betur undir það búinn að ræða um skurðaðgerðir eftir að hafa leikið í Bráðamóttökunni?” spurði hún.
Parker, sem er gift Hollywood leikaranum Matthew Broderick, taldi ekki miklar líkur á að gerð yrði kvikmynd byggðri á þáttaröðinni og sagði að þó að orðrómur væri á kreiki þá hefði enginn rætt við hana um slíkt verkefni.