Eftirlifandi meðlimir bresku rokksveitarinnar Led Zeppelin fengu hin virtu Polar-tónlistarverðlaun í gær, en það var Karl Gústaf Svíakonungur sem afhenti rokkurunum verðlaunin. Verðlaunaafhendingin fór fram í Stokkhólmi þar sem Led Zeppelin tók upp síðustu breiðskífu sína fyrir 27 árum.
Robert Plant, Jimmy Page og John Paul Jones gengu þvert yfir sviðið í Tónleikahöllinni í Stokkhólmi til þess að veita viðurkenningunni viðtöku, sem þeir deila með rússneska tónlistarstjórnandanum Valerí Gergíev. Dóttir trymbilsins, Johns Bonhams, sem lést árið 1980, veitti verðlaununum viðtöku fyrir hönd föður síns.
Plant ávarpaði samkomuna stuttlega en þar minntist hann á það að hljómsveitin hefði tekið upp síðustu breiðskífuna sína, In Through the Out Door, í hljóðveri í Stokkhólmi árið 1979.
„Það er langt um liðið. Tónlistin hefur verið frábært vegabréf fyrir okkur alla,“ sagði hann.
Polar-verðlaunin, sem er alla jafna deilt á milli popphljómlistarmanna og tónlistarmanna á sviði sígildrar tónlistar, voru stofnsett árið 1989 af Stig Anderson, sem var umboðsmaður sænsku popphljómsveitarinnar ABBA. Hann lagði fram fé í til Konunglega tónlistarskólans í Svíþjóð og nú fær hver sá sem hlýtur verðlaunin eina milljón sænskra króna, sem jafngildir um 9,8 milljónum íslenskra króna.
Nafn verðlaunanna draga nafn sitt af útgáfufyrirtæki Anderssons, Polar Records.
Jon Lord, fyrrum liðsmaður bresku rokkhljómsveitarinnar Deep Purple, las nokkur orð sem Konunglegi tónlistarskólinn hafði ritað um Led Zeppelin, en þar var hljómsveitin kölluð „einn af helstu frumkvöðlum rokksins“.
Bonham, Page, Jones og Plant stofnuðu Led Zeppelin árið 1968. Hljómsveitin hætti árið 1980 eftir að Bonham lést. Tónlist Led Zeppelin hefur hinsvegar lifað góðu lífi allt fram á þennan dag.