Staðfest hefur verið að ástralski tónlistarmaðurinn Nick Cave haldi tónleika í Reykjavík laugardaginn 16. september. Nick Cave er meðal virtustu tónlistarmanna samtímans og á að baki tímamótaverk, bæði einn síns liðs og með hljómsveitunum Birthday Party og The Bad Seeds.
Hann hélt tvenna eftirminnilega tónleika hér á landi fyrir fjórum árum og var viðstaddur frumsýningu á uppfærslu Vesturports á Woyzeck hérlendis í fyrra, en hann samdi tónlistina við verkið. Tónleikar Nicks Caves í Reykjavík fara fram í Laugardalshöll og tilkynnt verður um miðasölu síðar. Það er Hr. Örlygur sem stendur fyrir tónleikum Caves á Íslandi.
Nánar er fjallað um þetta í Morgunblaðinu í dag.