Plata bresku Gallagher bræðranna, Definitely Maybe , hefur verið valin besta plata allra tíma í nýrri skoðanakönnun breska tónlistartímaritsins New Musical Express (NME).
Á plötunni er að finna slagara eins og „Live Forever“ og „Supersonic“ og henni tókst að ýta Sgt. Pepper’s Lonely Hearts Club Band Bítlanna úr toppsætinu í annað sætið. Alls tóku yfir 40.000 manns þátt í könnuninni.
Bítlarnir eru sem fyrr í efstu sætum en Revolver plata þeirra vermir þriðja sætið, OK Computer með Radiohead er í því fjórða og Oasis-bræður sitja eru svo í fimmta sætinu með (What’s the Story) Morning Glory?.
Aðeins tvær bandarískar hljómsveitir eru á topp 20 en í sjötta sæti er Nirvana með plötuna Nevermind og Strokes eru í 20. sæti með Is This It.
Definitely Maybe, sem kostaði um 11 milljónir króna í framleiðslu, var gefin út þann 30. ágúst 1994. Hún fór beint á toppinn og seldist í sjö milljónum eintaka um allan heim.
Það voru aðstandendur bókarinnar British Hit Singles and Albums og NME sem stóðu að könnuninni. Þeir sem kusu komu víða að m.a. frá Nýja Sjálandi, Króatíu og Kólumbíu.
Þátttakendur fengu ekki fyrirfram gefinn lista í könnuninni. Tilgangurinn með þessu var að fagna hálfrar aldar afmæli breska hljómplötulistans.
Ritstjóri bókarinnar British Hit Singles and Albums, David Roberts, segir að venjulega sé að finna á svona listum plötur sem fólk er nýbúið að kaupa, enda séu þær ferskar í minni. „En þessi könnun sýnir fram á það að virkilega góðar plötur lifa góðu lífi,“.
„Aðeins tvær plötur á topp 20 voru gefnar út á sl. fimm árum, svo það er ljóst að kjósendur hafi hugsað sig vel og vandlega um valið.“
Alls voru valdar 100 bestu plötur allra tíma en hér fyrir neðan gefur að líta efstu 20 plöturnar: