David Gilmour, fyrrum gítarleikari hljómsveitarinnar Pink Floyd, hvetur hina frægu og ríku til þess að veita meira fé til góðgerðarmála. Gilmour gaf nýverið 3,5 milljónir punda til byggingar íbúða fyrir fátæka, eftir að hafa selt eina af fasteignum sínum. „Ástæðan fyrir því að ég læt opinberlega vita af þessu er sú, að ég vil hvetja annað þekkt fólk sem er auðugt til þess að taka þátt í slíkri góðgerðarstarfsemi,“ segir Gilmour.
Gilmour segist ekki þekkja nógu marga fræga listamenn til þess að hvetja þá beint til þess að verja tíma og fé til slíkra mála. Í viðtali við breska dagblaðið Daily Express sagði Gilmour að áður fyrr hefði það verið hefð í Bretlandi að sýna slíka líknarlund en svo væri ekki lengur. Hann hitti aðeins ríka listamenn í veislum og þá sé ekki staður eða stund til að ræða málin.