Paul McCartney var 24 ára þegar Bítlarnir tóku fyrst upp lagið „When I'm Sixty-Four“. Í dag fær hann væntanlega svarið við öllum spurningunum sem hann spurði í texta lagsins, því að í dag verður hann 64 ára. Mánuður er síðan McCartney greindi frá því að hann væri skilinn við konu sína, Heather Mills.
James Paul McCartney fæddist í Liverpool 18. júní 1942. Hann var aðeins 15 ára þegar hann samdi lagið um daginn í dag, lag sem varð eitt þekktasta Bítlalagið og kom út á plötunni „Sgt. Pepper´s Lonely Hearts Club Band“ árið 1967.
Breska blaðið The Sunday Mirror segir að McCartney ætli að halda upp á daginn á býli sínu í Sussex á Suður-Englandi með tveim dætrum sínum, Stellu, sem er fatahönnuður, og Mary, sem er ljósmyndari. Einnig verður sonur hans, James, með honum við útigrillið, ásamt ættleiddri dóttur hans, Heather, og bróður hans, Mike.