Sigur Rós heldur í tónleikaferð um landið

Sigur Rós.
Sigur Rós. mbl.is/Árni Torfason

Á næstu dögum hefst tónleikaferð Sigur Rósar um landið, en alls er fyrirhugað að hljómsveitin leiki á sjö tónleikum víða um land á næstu tveim vikum.

Tónleikarnir eru allir ókeypis en að sögn Kára Sturlusonar, sem skipulagt hefur ferðina í samvinnu við hljómsveitina, er tilgangur ferðarinnar að spila fyrir land og þjóð og taka upp heimildarmynd um hljómsveitina, náttúru landsins og mannlíf.

Kári segir að tónleikarnir í hverjum landshluta séu aðallega ætlaðir íbúum á svæðinu og því verði þeir aðeins auglýstir á viðkomandi stað með skömmum fyrirvara. Þetta segir hann gert til að sem flestir íbúar staðarins og nærsveitamenn eigi kost á að sjá hljómsveitina, enda sé húsrými jafnan takmarkað.

Að þessu sögðu hefur verið tilkynnt um tíma- og staðsetningu tvennra tónleika. Föstudaginn 28. júlí leikur hljómsveitin þannig á útitónleikum við bæinn Háls í Öxnadal, en um hálftíma akstur er þangað frá Akureyri. Á Hálsi er rekinn veitingastaðurinn Halastjarnan og Kári segir að Guðveig og Vigfús á Hálsi, sem reki Halastjörnuna, hafi verið ómetanleg í skipulagningu tónleikanna ásamt Helga Þór Helgasyni á Bakka sem á túnið sem tónleikarnir munu fara fram á. "Þetta verða ekki bara tónleikar heldur verður líka grænmetismarkaður á staðnum og fleira í boði fyrir gesti og gangandi. Það er rétt að ítreka að frítt verður á tónleikana og við hvetjum sem flesta í nærliggjandi byggðum og sveitarfélögum til þess að koma og eiga saman notalega kvöldstund," segir Kári en tónleikarnir hefjast kl. 22:00 og lýkur rétt fyrir miðnætti.

Sunnudaginn 30. júlí leikur Sigur Rós síðan á útitónleikum á Klambratúni í Reykjavík, en á þeim tónleikum hitar hljómsveitin Amiina upp. Mikið verður lagt í þá tónleika, að sögn Kára, enda sé ætlunin að umgjörð þeirra verði svo glæsileg að ekki hafi annað eins sést í Reykjavík. Þeir tónleikar, sem eru einnig ókeypis, hefjast kl. 20.45. Þeim verður einnig sjónvarpað beint í Sjónvarpinu og sendir beint út á Rás 2 og einnig verða þeir sendi um gervihnött í kvikmyndahúsið National Film Theater í Lundúnum til að áhugasamir geti einnig fylgst með tónleikunum þar í borg. "Sigur Rós hvetur fólk sérstaklega til þess að sækja tónleikana á Hálsi og Klambratúni með því hugarfari að verið sé að fara í lautarferð og við hvetjum fjölskyldufólk og eldri borgara sérstaklega til að mæta," segir Kári og bætir við að til hægðarauka fyrir gesti á Klambratúni verði til afnota fyrir tónleikagesti bílastæði við Kringluna, Perluna, Austurbæjarskóla, Iðnskólann, Háteigskirkju, Sjómannaskólann, Ísaksskóla og Valsheimilið.

True North framleiðir kvikmyndina með styrk frá Kvikmyndamiðstöð Íslands. Icelandair styrkir verkefnið í heild og Reykjavíkurborg býður upp á tónleikana á Klambratúni í samvinnu við Sigur Rós og ofantalda aðila.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar