Saga sem höfundi Hringadróttinssögu, J.R.R. Tolkien, láðist að klára í lifanda lífi hefur nú verið kláruð af syni hans og kemur hún út næsta vor.
Sonurinn, Christopher Tolkien, hefur nú eytt þrjátíu árum af ævi sinni í að vinna að þessari sögu, sem kallast á frummálinu The Children of Hurin. Þetta er epísk saga sem faðir hans hóf að rita árið 1918 en skildi svo við.
Tolkien yngri sagðist bjartsýnn á að sagan ætti erindi við lesendur og sagði hún fyllilega standa undir því að vera sjálfstætt verk þó svo að partar úr sögunni hafi komið fyrir sjónir almennings áður. Í henni koma meðal annarra fyrir dvergar og álfar úr þríleiknum Hringadróttinssögu.
Tolkien lést árið 1973, þá 81 árs að aldri.