Heather Mills heldur því fram í skjölum sem lögð hafa verið fram í skilnaðarmáli hennar og Bítilsins Paul McCartney að hann hafi beitt hana líkamlegu ofbeldi. Í skjölunum er því haldið fram að Paul hafi stungið hana í handlegginn með glerbroti og reynt að kyrkja hana og að hann hafi einnig ráðist á hana er hún gekk með dóttur þeirra Beatrice.
Þá er því haldið fram að Paul hafi neytt ólöglegra lyfja og drukkið áfengi í óhófi á meðan á hjónabandi þeirra stóð og að hann hafi neytt hana til að fresta mikilvægri aðgerð sem hún þurfti að gangast undir, þar sem hún hafi stangast á við ferðaáætlanir þeirra. Heather, sem missti annan fótinn í bifhjólaslysi árið 1993, heldur því einnig fram að hún hafi eitt sinn neyðst til að skríða á höndum og fótum um borð í einkaflugvél þeirra þar sem Paul hafi ekki gert viðeigandi ráðstafanir.
Talsmaður McCartneys hefur neitað að tjá sig um ásakanirnar en segir hann þó afar sleginn yfir þeim. Þá segir ónefndur heimildarmaður breska blaðsins Daily Mirror: „Hann hafnar ásökununum alfarið og getur varla trúað því að hann sé sakaður um slíka hegðun. Hann er öskureiður. Það eina sem hann gerði henni var að hugsa vel um hana.