Breska leikkonan Helen Mirren, sem er 61 árs, hefur verið valin kynþokkafyllsta eldri konan í skoðanakönnun sem framkvæmd var í Bretlandi. Þá þykja kvikmyndaleikkonurnar Goldie Hawn, Susan Sarandon, Charlotte Rampling og Susan Sarando einnig mjög kynþokkafullar. Þetta kemur fram á fréttavef Ananova.
Mirren hlaut nýlega Gullpálmann í Cannes fyrir túlkun sína á Elísabetu Englandsdrottningu og hefur hún lýst því yfir að hún geri nú allt til að líkjast drottningunni sem minnst. „Eftir að ég lék drottninguna reyni ég í örvæntingu að líkjast henni sem minnst. Ég vil bara að fólk horfi á mig og hugsi: Hvernig gat hún leikið drottninguna. Hún líkist henni ekki neitt. Það krefst mikillar viðleitni,” sagði hún.
Eitt þúsund þátttakendur tóku þátt í könnuninni sem framkvæmd var í Lakeside verslunarmiðstöðinni í Essex.