Sjöunda og síðasta bókin um Harry Potter kemur út 21. júlí, að því er höfundurinn, J.K. Rowling, greindi frá í dag á vefsíðu sinni.
Bloomsbury-útgáfan, sem gefur bækurnar út í Bretlandi, greindi frá því að bókin kæmi út í innbundinni útgáfu fyrir börn, innbundinni útgáfu fyrir fullorðna, sérstakri gjafaútgáfu og sem hljóðbók.
Scholastic-útgáfan í Bandaríkjunum sagði að þar kæmi bókin út í innbundinni útgáfu, lúxusútgáfu og styrktri bókasafnsútgáfu.
Titill bókarinnar verður Harry Potter and the Deathly Hallows.
Tíu ár eru nú liðin frá því að fyrsta bókin um Harry Potter kom út. Bækurnar hafa verið þýddar á 64 tungumál og selst í samtals 325 milljónum eintaka.
Sjötta bókin, Harry Potter and the Half-Blood Prince, seldist í rúmlega tveim milljónum eintaka í Bretlandi daginn sem hún kom út.
Harry Potter er svo mikilvæg tekjulind fyrir Bloomsbury, að útgefandinn tilkynnti kauphöllinni í London um væntanlega útgáfu. Eftir að tilkynningin barst hækkuðu hlutabréf í Bloomsbury um 2,2 prósent.