Leikarinn Bruce Willis mun leika í nýrri mynd leikstjórans Oliver Stone sem byggir á fjöldamorðunum í My Lai í Víetnam árið 1968. Er þetta fjórða myndin sem Stone gerir um Víetnamstríðið.
Mun Willis leika hershöfðingja í her Bandaríkjanna sem rannsakar fjöldamorð sem bandarískir hermenn frömdu í þorpi í Víetnam.
Á vef BBC kemur fram að Stone að ljúka við fjármögnun myndarinnar en væntanlega mun bandaríska kvikmyndafyrirtækið United Artists fjármagna gerð myndarinnar.
Vinnuheiti myndarinnar er Pinkville og stefnt er að því að hefja tökur á næsta ári. Fyrri myndir Stone um Víetnamstríðið vöktu mikla athygli og fékk hann Óskarsverðlaunin fyrir Platoon árið 1987 en alls fékk myndin fjögur Óskarsverðlaun.
Hann fékk tvenn Óskarsverðlaun fyrir Born on the Fourth of July og Heaven and Earth vann Golden Globe verðlaunin árið 1994.