Ný útvarpsstöð, Mono fm 87,7, hefur útsendingar í dag, laugardaginn 15. ágúst, kl. 18. Stöðin er í eigu Íslenska útvarpsfélagsins og mun strax í upphafi ná til um 97% íslensku þjóðarinnar. Mono á fyrst og fremst að þjóna ungu fólki á aldrinum 15-25 ára. Meðal dagskrárgerðarmanna sem gengið hafa til liðs við mono má nefna Pál Óskar Hjálmtýsson, Ragnar Blöndal (áður á X-inu), Björn Markús (áður á FM), Einar Ágúst (úr Skítamóral), Svavar Örn (Ísland í dag), Jóhann Guðlaugsson (úr Radar), Hauk Guðmundsson (Saturday night fever), Ásgeir Kolbeinsson (áður á FM og Bylgjunni), Andrés Jónsson (áður á Rás 2) og Bryndísi Ásmundsdóttur (áður á Aðalstöðinni).