Lance Bass, söngvari bandarísku drengjasveitarinnar 'N Sync, hefur gert bráðabirgðasamkomulag við Rússnesku geimferðastofnunina um að taka þátt í ferð rússnesks geimfars til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar í október.
Óttast að Bass þoli ekki ferðalagið
Bass getur því fetað í fótspor auðkýfinganna Dennis Titov og Mark Shuttleworth, sem voru fyrstu geimferðalangarnir. Búist er við því að Bass muni þurfa að greiða í kringum 1,7 milljarða ísl. króna fyrir undirbúningstímann og ferðalagið. Bandaríska geimferðastofnunin, NASA, hefur lýst yfir áhyggjum að Bass muni ekki þola ferðalagið, en Rússneska geimferðastofnunin er sannfærð um að Bass verði tilbúinn í tíma þrátt fyrir að talið sé að hann þurfi að minnsta kosti sex mánaða þjálfun. Hann hefur meðal annars gengist undir aðgerð til þess að laga óreglulegan hjartslátt, en að öðru leyti er hann sagður hafa staðist læknisskoðun, að því er fram kemur á fréttavef BBC.
Bass hefur sagt að það hafi verið draumur sinn að komast í ferð með geimfari frá því að hann fékk tækifæri til að kynnast geimferðum á yngri árum. Gert er ráð fyrir að geimfararnir Sergei Zalyotin, frá Rússlandi, og Frank De Winne, frá Belgíu, muni ferðast með Bass í Soyuz-geimfari í október.