Samkvæmisljónið Nicole Richie og kærastinn hennar, rokkarinn Joel Madden, eignuðust dóttur í gær. Hún kom í heiminn á sjúkrahúsi í Los Angeles og hlaut nafnið Harlow Winter Kate Madden.
Nicole er 26 ára og hefur getið sér það til frægðar á undanförnum árum að vera ættleidd dóttir söngvarans Lionels Richies, vera dugleg að láta á sér bera í samkvæmislífinu vestanhafs og taka þátt í raunveruleikaþættinum The Simple Life með Parísi Hilton.
Hún sat í fangelsi í eina klukkustund í ágúst, þá barnshafandi, eftir að hafa verið dæmd í fjögurra daga fangelsi fyrir að aka á öfugum vegarhelmingi á hraðbraut undir áhrifum fíkniefna. Þar sem fangelsi í Los Angeles eru yfirfull sitja smáglæpamenn oft ekki af sér nema brot af þeim dómum sem þeir fá.