Hljómsveitin Sprengjuhöllin hefur lokið við tónsmíðar á nýju lagi sem notað verður í leikritinu Fló á skinni sem LA hefur sýningar á í febrúar. Lagið er samnefnt leikritinu og sver sig svo sem í ætt við þann stíl sem Sprengjuhöllin hefur markað sér þó að hendingar í laginu minni óneitanlega á gamla Small Faces slagarann „Itchycoo Parc“ en þar er ekki leiðum að líkjast.
Á bloggsíðu Wim Van Hooste (http://icelandicmusic.blogspot.com) sem heldur úti einskonar aðdáendasíðu tileinkaðri íslenskri tónlist má svo finna enska útgáfu af lagi Sprengjuhallarinnar „Verum í sambandi“ en á ensku kallast lagið „Worry til Spring“.
Þá er bara eftir að finna enskt nafn á sveitina sjálfa og útrásin getur hafist fyrir alvöru.