„Britneyjarhagkerfið“ vex

Forsíðumynd OK! af Britney og sonum hennar.
Forsíðumynd OK! af Britney og sonum hennar.

Um það leyti sem sápuóperan um Britneyju Spears náði hámarki í kringum áramótin jókst sala á tímaritum sem fjalla um fræga fólkið, slúðurvefir fengu metaðsókn, áhorf á slúðursjónvarpsstöðvar jókst og papparassaljósmyndarar fengu hærra verð fyrir myndir sínar.

Sífellt fleira fólk og fyrirtæki á sífellt meira undir sögunni um Britneyju komið. Fyrir sífellt fleiri verður þessi dapurlega saga spurning um meiri peninga.

Í hvert sinn sem Britney sekkur dýpra streyma peningarnir hraðar og hagkerfið sem sprottið er upp í kringum hana vex. Og núorðið er enginn yfir það hafinn.

Þegar forræðisdeila Britneyjar og Kevins Federlines leiddi til þess að lögregla var kölluð að heimili Britneyjar í janúarbyrjun voru allir miðlar að fjalla um málið, m.a. hin virðulega fréttastofa Associated Press, sem var með tvo fréttamenn á staðnum og tvo til viðbótar, bæði á austur- og vesturströndinni, sem uppfærðu fréttina sjö sinnum sama sólarhringinn. 

„Britney er verðmætust allra af fræga fólkinu núna, og hefur verið það undanfarið ár,“ segir Francois Navarre, stofnandi papparassafyrirtækisins X17.

Britney hefur verið stöðugt í fréttum síðan hún fór fram á skilnað við Kevin í nóvember 2006. Síðan hefur hún hvað eftir annað farið á meðferðarstofnanir, rakað af sér allt hárið, sýnt á sér klofið, verið handtekin eftir umferðaróhapp og glatað forræði yfir drengjunum sínum tveim.

Nú síðast bárust af því fregnir að hún væri líklega haldin geðhvarfasýki og ætlaði að leita sér viðeigandi meðferðar.

„Æsifréttamiðlarnir nærast á því sem er óvenjulegt og Britney hefur stöðugt séð þeim fyrir slíku,“ segir Dan Smith, deildastjóri viðskiptafræðideildar Indiana-háskóla.

Auglýsingatekjur hefðbundinna fjölmiðla eru nú að dragast saman, en miðlar sem segja slúðursögur af frægu fólki, eins og til dæmis tímaritin Star, Us Weekly og In Touch Weekly, vaxa aftur á móti og dafna.

Þess vegna jókst heildarsala tímarita í Bandaríkjunum um eitt prósent á fyrri helmingi síðasta árs. Aukninguna mátti eiginlega að öllu leyti rekja til aukinnar sölu á slúðurtímaritum.

„Alla ritstjóra dreymir um að horfa á raunverulega sápuóperu gerast beint fyrir framan nefið á sér. Britney hefur séð fyrir því í hverri viku,“ segir Sarah Ivens, ritstjóri bandarísku útgáfu tímaritsins OK!

Tímaritið er með tíu manns í fullri vinnu í Los Angeles við það eitt að fylgjast með gangi mála hjá Britneyju. „Við erum alltaf á Britneyjarvaktinni.“

Britney á skjánum í þættinum Enternainment Tonight.
Britney á skjánum í þættinum Enternainment Tonight. AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þrá eftir fullkomnun og óraunsæjar áætlanir eiga hug tvíburans allan um þessar mundir. Og það sem meira er, þetta er ekkert mál fyrir þig! Oftast viltu nefnilega það sama.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Torill Thorup
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þrá eftir fullkomnun og óraunsæjar áætlanir eiga hug tvíburans allan um þessar mundir. Og það sem meira er, þetta er ekkert mál fyrir þig! Oftast viltu nefnilega það sama.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Torill Thorup