Breska tónlistarmanninum og plötusnúðnum Boy George var synjað um landvistarleyfi í Bandaríkjunum en hann var búinn að skipuleggja 30 tónleika í Bandaríkjunum og Kanada í júlí og ágúst. Boy George sagði sjálfur frá þessu á vefsíðu sinni í dag.
Ástæðan fyrir synjuninni mun vera sú að nú er rekið mál fyrir breskum dómstólum þar sem Boy George er sakaður um að hafa haldið karlmanni föngnum á heimili sínu í austurhluta Lundúna með því að hlekkja hann við vegg í apríl á síðasta ári.
Þessum ásökunum neitar fyrrum söngvari Culture Club sem segist vera drengur góður. Maðurinn sem sakar hann um fangelsunina starfar sem fylgismaður karla (e. male escort).
Búið er að aflýsa tónleikaför Boy George í Norður-Ameríku.