Fyrsti rafmagnsgítarinn sem tónlistarmaðurinn Jimi Hendrix brenndi á sviði var sleginn á 280.000 pund (rúmar 42 milljónir kr.) á uppboði í London í dag.
Hendrix kveikti í gítarnum, sem er af Fender Stratocaster gerð frá árinu 1965, á frægum tónleikum sem fram fóru í Finsbury Astoria í London árið 1967. Svo mikill var hamagangurinn á tónleikunum að Hendrix varð að fara á sjúkrahús í kjölfar tónleikanna, en hann hlaut minniháttar brunasár á höndum.
Aðstoðarmaður gítarhetjunnar, Tony Garland, tók gítarinn og geymdi hann fyrst um sinn á skrifstofu sinni. Síðar var hljóðfærinu komið fyrir í bílskúr foreldra Garlands þar sem hann var geymdur næstu áratugina. Það var svo ungur frændi Garland sem fann svo gítarinn í skúrnum í fyrra.
Ýmsar rokkminjar voru seldar á uppboðinu auk gítarsins, þar á meðal fyrsti samningurinn, sem Bítlarnir gerðu við Brian Epstein, umboðsmann þeirra, og umsókn sem Elvis Presley fyllti út fyrir byssuleyfi. Samningur Bítlanna, sem gerður var árið 1962, seldist á 240 þúsund pund, jafnvirði 36,5 milljóna króna, og umsóknin um byssuleyfið seldist á 46 þúsund pund, jafnvirði 7 milljóna króna.