Lag Alberts G. Jónssonar „Lygin ein“ sem á laugardaginn komst áfram í úrslit Söngvakeppni Sjónvarpsins er þegar farið að sækja í sig veðrið í útvarpi og á netinu. Lagið er e.t.v. sérstakt fyrir þær sakir að það er dansvænt á nútímalegan mælikvarða en önnur lög í keppninni hafa helst litið til gömlu dansanna og vikivaka í þeim efnum.
Lagið hefur þar að auki nokkuð kynþokkafullan brag yfir sér þrátt fyrir harðan „girl power“ boðskap textans og í flutningi Köju (eiginkonu Alberts) og dansaranna tveggja eru allar líkur á að lagið veki athygli í sjónvarpi en þar er björninn iðulega unninn í Eurovisjón.
Á hinn bóginn má benda á það að lagið er í raun og veru viðlagslaust og nær þess vegna eiginlega aldrei nógu miklu risi til að fullnægja tóneyranu. Segir það kannski mikið um gæði hinna laganna sem ekki komust áfram.