Brasilíski gítarsnillingurinn Thiago Trinsi, sem er búsettur á Akureyri, er kominn áfram í lokaumferð bresku keppninnar Guitar Idol þar sem menn leiða saman hesta sína í gítarfimi. Útsláttarkeppnin er haldin árlega og stendur yfir í sex mánuði á netinu en endar á því að tólf gítarleikarar keppa um sigurlaunin á sviði í London.
„Þetta kom mér rosalega á óvart,“ segir Thiago. „Sérstaklega þar sem flestir komast í gegn á netkosningu, en ég fékk aðeins fjórtán atkvæði í forkeppninni. Nú þarf ég virkilega á aðstoð Íslendinga að halda til að kjósa mig, því ég er sá eini sem keppir fyrir Íslands hönd þarna.“
Thiago kennir í Tónlistarskóla Ólafsfjarðar en auk þess tekur hann þátt í hinum ýmsu verkefnum. Þar má nefna Queen-heiðrunarsveit þar sem Magni Ásgeirsson er í hlutverki Freddie Mercury og meðlimir Hvanndalsbræðra spila undir.