Greinarhöfundur hefur aldrei séð aðra eins upphæð fyrir íslenska plötu á hinum alþjóðlega safnaramarkaði, en um er að ræða plötuna The Entity sem kom út árið 1991. Það er ljóst að í þessu hálfrar milljónar króna tilviki er um að ræða einangrað – og nokkuð furðulegt – dæmi. Engu að síður er gangverðið á plötunni um 250.000 krónur íslenskar, og gildir einu hvort um vínyl- eða geisladiskaútgáfu er að ræða. Það er því ljóst að í öllu falli er um Íslandsmet að ræða. Plata Thor's Hammer, eða Hljóma, fer nú á 190.000 krónur og kemst þannig næst plötu Sororicide.
Gísli Sigmundsson, fyrrum bassaleikari og söngvari Sororicide og núverandi söngvari Beneath, segist fá fyrirspurnir að utan annað slagið um plötuna og hún hafi verið eftirsótt af söfnurum úti í heimi um nokkurra ára skeið.
„Það er hins vegar bara nýlega sem maður hefur verið að sjá svona fáránlegar upphæðir,“ segir hann. „Hér áður fyrr gat ég reddað mönnum disk og disk. Ég dauðsé að sjálfsögðu eftir því í dag (hlær).“
Fjallað er um goðsögnina um Sororicide í Morgunblaðinu í dag.