Suður-Afrískur verkamaður var rekinn úr starfi eftir að hann setti ummæli um yfirmann sinn á Facebook. Kallaði hann yfirmann sinn „rað-runkara". Þetta kemur fram í breska dagblaðinu Times í dag en maðurinn biður um að nafn hans verði ekki gefið upp þar sem hann óttast að missa nýju vinnuna vegna þessa.
Var það vinnufélagi mannsins sem tilkynnti um ummælin en ekki kemur fram hvenær þetta gerðist. Ekki er langt síðan Facebook náði vinsældum í Suður-Afríku en fleiri sambærileg mál hafa komið þar upp. Varar lögspekingurinn Willem de Klerk, notendur Facebook við því að setja hvað sem er inn á samskiptavefinn. „Það er stór greinarmunur á því hvort það sem þú segir byggir á staðreyndum eða hvort þú notar vefinn til þess að bera út sora um vinnuveitenda þinn," segir de Klerk.