Hópur 47 skáta frá Þýskalandi, Sviss, Slóveníu, Rúmeníu og Íslandi sem tekur þátt í Roverway skátamótinu gekk á Hrútfjallstinda á Öræfajökli.
Lagt var af stað úr tjaldbúð í Skaftafelli klukkan fimm um morguninn og gengið með Skaftafellsjökli upp Hafrafell. Í 540m hæð var áð og vatnsbrúsar göngugarpa fylltir, um klukkan átta kom hópurinn upp á eggjar Hafrafellsins með stórkostlegu útsýni yfir Öræfajökul, gengið var niður Sveltiskarð, norður fyrir Vesturtind með útsýni yfir Vatnajökulsbreiðuna.
Varlega var farið yfir sprungna sléttuna á milli fjögurra tinda Hrútfjallstinda en eftir átta klukkustunda göngu var komið upp á Miðtind, hæsta topp Hrútfjallstinda í tæplega 1.900m hæð. Sól og bjartviðri var mest alla ferðina og áttu erlendu skátarnir ekki orð yfir fegurðina og útsýnið á toppnum.
Komið var til baka í tjaldbúðina í Skaftafelli undir kvöldmat, þar hitti hópurinn um 250 þátttakendur úr fimm öðrum leiðöngrum Roverway skátamótsins og því kjörið tilefni til að tendra bál og taka lagið við varðeldinn um kvöldið.
Skátarnir sem eru á aldrinum 16-22 ára létu ekki þar við sitja heldur enduðu kvöldið með dúndrandi diskóteki í kvöldblíðunni.
Í gær unnu skátarnir að stígagerð í Skaftafelli og upp að Svartafelli fyrir þjóðgarðinn okkar og í dag heldur hópurinn að Úlfljótsvatni þar sem hann hittir yfir 3.000 skátasystkini sín úr hinum 52 leiðöngrum Roverway-skátamótsins og tekur þátt í fjölbreyttri dagskrá fram á þriðjudag í næstu viku.